145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[11:09]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög áhugavert að koma inn sem varaþingmaður á lokametrum þessa þings. Satt best að segja hélt ég þegar ég var kölluð til þings um helgina að ég væri komin til þess að vinna eitthvert þarfaverk en ekki til að dingla hér í eina viku án þess að vinna fyrir kaupinu mínu. Það er ágætt að fara út öðru hvoru, ég hef nokkrum sinnum tekið sæti á þingi á þessu kjörtímabili m.a., og núllstilla sig og koma svo aftur á þetta leiksvið og fylgjast með. Ég hefði haldið miðað við það hvað þetta er stutt kjörtímabil að ríkisstjórnin hefði nóg að gera og tæki öllum fagnandi sem vilja taka þátt í lýðræðinu og koma góðum málum í gegn.

Virðulegi forseti. Ég vona að hið fyrsta fáum við að sjá starfsáætlun sem við getum síðan nýtt tímann í þessari viku til að vinna að og koma góðum málum í gegn. Ég ímynda mér að þeir sem eru að fara í framboð, sem eru sumir í salnum, ekkert mjög margir kannski þegar upp er staðið, vilji hafa tíma í næstu viku til þess að afla sér og sínum málstað fylgis.