145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[11:10]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Núverandi ástand í þinginu er algjörlega ólíðandi. Ég hef stundum líkt þessu við það að vera í skóla án þess að vera kominn með kennsluáætlun eða vera að fara í próf án þess að vera kominn með leslista eða jafnvel vera að fara í próf án þess að vita hvenær prófið á að vera. (Gripið fram í: Eða í hvað fagi.) Eða í hvað fagi eða klukkan hvað. Er það klukkan sex um morguninn eða sex um kvöld? Nei, maður veit það ekki þannig að maður missir bara af prófinu og fellur.

Það er alger lágmarkskurteisi að við fáum einhvern ramma um komandi þingstörf. Þetta er lágmarkskrafa og engin frekja í minni hlutanum að biðja um það. Þingstörf gengu tiltölulega vel í síðustu viku, vikunni þar á undan og vikunni þar á undan. Ég skil ekki hvað er svona erfitt við það að verða við þeirri sjálfsögðu bón að koma einhverju skipulagi á þingið núna þegar sennilega helstu dramatísku, pólitísku atburðir ársins eru afstaðnir, sem eru auðvitað flokksþing Framsóknarflokksins.