145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

rammaáætlun.

[11:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Rammaáætlun um vernd og nýtingu landsvæða er eitt af stærstu umfjöllunarefnum samtímans og hefur verið á dagskrá þingsins bæði undir þeim lið og undir öðrum liðum um margra ára skeið. Þarna er um að ræða verkfæri og tilraun þeirra sem vilja nýta og þeirra sem vilja vernda til þess að ná jafnvægispunkti og til þess að ná sameiginlegum skilningi á ákveðnum grundvelli og ákveðnum leikreglum. Nú er það svo að þetta er eitt af þeim stóru málum sem eru hér undir fyrir þessar kosningar og hæstv. umhverfisráðherra hefur mælt fyrir ítarlegri tillögu að afloknum 3. áfanga rammaáætlunar, sem er fyrsti áfanginn þar sem starfað er samkvæmt lögunum frá síðasta kjörtímabili til fulls þar sem ekki er lengur um að ræða bráðabirgðaákvæði heldur það sem ferillinn er samkvæmt lögunum.

Hæstv. umhverfisráðherra leggur tillöguna samkvæmt lögum fram í samráði við hæstv. iðnaðarráðherra og var eftir því tekið að hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, sem málinu var illu heilli vísað til, hafði á því efnislegar skoðanir sem lutu að því með hvaða hætti ætti að afgreiða tillöguna og ræddi það sérstaklega hér á fyrstu dögum eftir að málinu hafði verið vísað til hv. atvinnuveganefndar.

Í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur ekki tjáð sig um stöðu rammaáætlunar í hennar huga en er jafnframt sá ráðherra sem umhverfisráðherra hafði sannarlega samráð við við framlagningu málsins vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki skýrt að ráðherrann stendur einhuga og skýr bak við tillögu umhverfisráðherra sem er til umfjöllunar á Alþingi.