145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

réttur til fæðingarorlofs.

[11:23]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Fæðingarorlofskerfið, atvinnuleysisbótakerfið og eins og þær greiðslur sem eru í almannatryggingum eru öll með einum eða öðrum hætti ávinnslukerfi. Fólk ávinnur sér ákveðin réttindi, það getur verið á grundvelli atvinnuþátttöku, á grundvelli búsetu, en það eru skýr ákvæði í lögunum um það hvernig fólk ávinnur sér réttindin til greiðslna.

Hvað varðar ábendingarnar um Fæðingarorlofssjóðinn þá er hann fjármagnaður af tryggingagjaldinu. Það er grundvallaratriði í mínum huga að það náist samkomulag á milli aðila vinnumarkaðarins, atvinnurekenda og verkalýðsfélaganna með ríki og sveitarfélögum um það hvernig við ætlum að hátta tryggingagjaldinu. Það hafa staðið á okkur kröfur annars vegar um að lækka tryggingagjaldið og hins vegar að auka verulega útgjöldin hjá ríkissjóði í þessum stóru tilfærslukerfum. Við höfum verið að fara yfir þær tillögur sem nefnd á mínum vegum skilaði um breytingar á fæðingarorlofinu, annars vegar um það hvernig á að breyta greiðslunum þannig að fólk geti fengið 100% greiðslu upp að 300 þús. kr. og síðan 80% upp að 600 þús. kr., og hins vegar um að lengja í ákveðnum skrefum tímann sem fólk getur verið í fæðingarorlofi.

Við höfum samhliða því farið yfir athugasemdir sem snúa að útreikningunum sjálfum, sem hafa komið frá þeim sem hafa fengið greiðslur. Það má segja að það hafi verið ágreiningur á milli okkar og Fæðingarorlofssjóðs, sem var síðan skorið á hjá umboðsmanni Alþingis, um það hvernig ætti að túlka lögin. En það liggur líka fyrir að við þurfum að gera ákveðnar lagabreytingar til að skýra þetta betur. Það fóru ákveðnar breytingar inn í frumvarpið sem var til umsagnar núna í sumar varðandi breytingu á lögum um fæðingarorlof. Ég tel líka mjög mikilvægt, eins og hv. þingmaður benti á, þótt það hafi ekki verið hluti (Forseti hringir.) af þeim tillögum sem nefndin skilaði, að við förum yfir greiðslurnar sem snúa að fæðingarstyrk eða að því fólki (Forseti hringir.) sem er ekki virkt á vinnumarkaðnum.