145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

réttur til fæðingarorlofs.

[11:26]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. En það sem ég skil ekki alveg er af hverju fólk þarf að ávinna sér rétt til að fara í fæðingarorlof. Við viljum að konur eignist börn. Ég skil að maður þurfi að ávinna sér rétt til að fara í námsleyfi eða eitthvað þess háttar. Ég hef áhyggjur af því að ég heyri allt of margar sögur um fólk sem fellur á milli. Þá er ég ekki einu sinni að tala um fólk sem er ekki á vinnumarkaði heldur vann óvart ekki of mikið í einum mánuði. Hvernig má það vera að ef manneskja í hlutastarfi fær 10%, segjum 20% starfshlutfall í einum mánuði, 70% í þeim næsta, þá gildir mánuðurinn ekki þar sem hún vann 20% af því að það þarf að vera 25% minnst? Mér finnst vera svo mikið af vitleysisákvæðum þarna. Ég veit alveg að það er einhver hugsun að baki, en stundum finnst mér við líka sitja uppi með reglugerðir sem enginn veit hvernig urðu eins og þær eru. Það eru yfirleitt konur sem taka þessa sex mánuði. Af hverju gerum við ekki kröfu um þessar atvinnuleysisbætur, um einhverja ákveðna upphæð? Af hverju eiga foreldrar ekki rétt á ákveðinni upphæð, 300 þús. kr., þegar þeir eru heima með lítil börn? Ríkisstjórn sem er tilbúin að setja (Forseti hringir.) ríkisfé í að greiða niður skuldir heimilanna hlýtur að vilja taka á þessu máli.