145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

aðildarviðræður við ESB.

[11:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég, eins og efalaust margir aðrir landsmenn, lenti í því í gær að fá óvart beint í æð ýmsar nýjar stefnur hjá Framsóknarflokknum vegna æsispennandi biðar eftir því hver yrði næsti formaður flokksins. Ég hjó eftir því í umræðum um aðildarviðræður að Evrópusambandinu að þá kom fram að framsóknarmenn litu svo á að aðstæður væru gjörbreyttar, m.a. út af Brexit, þannig að ef þjóðin mundi kjósa um að halda aðildarviðræðum áfram þyrfti að byrja frá núlli.

Mig langar að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra hvernig hann sjái þá fyrir sér ef Framsóknarflokkurinn tekur þátt í því að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðnanna, sem ég tók ekki eftir að væri einhver sérstök stefna hjá flokknum, en ég er reyndar ekki búin að lesa allt sem fór fram eða var samþykkt á þessum fundi Framsóknarflokksins um helgina. En mér finnst mjög brýnt að reyna að finna einhverjar upplýsingar eða heyra frá hæstv. ráðherra hvernig standi til að framkvæma það ef þjóðin kýs að halda aðildarviðræðum áfram.

Ég tók eftir mjög umfangsmikilli stefnubreytingu frá því í fyrra á flokksþingi, en þar segir að Framsóknarflokkurinn telji verulega áhættu fylgja lagningu raforkustrengs til Evrópu. Í ár stendur að Framsóknarflokkurinn fagni skýrslu um hagkvæmni sæstrengs til Bretlands og skori á stjórnvöld að kanna samning við bresk stjórnvöld um langtímasamninga um kaup á raforku. Mig langaði að heyra af hverju slík stefnubreyting varð í þessum tiltekna málaflokki.