145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

aðildarviðræður við ESB.

[11:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vil byrja á því að fara yfir stöðuna í Evrópusambandinu í kjölfar Brexit. Það eru miklu óvissutímar fram undan, eins og þingmanni er líklega kunnugt um, og við í utanríkisráðuneytinu höfum farið í umfangsmikla vinnu til að bregðast við því. Við höfum verið að setja upp þá möguleika sem stæðu Íslandi til boða.

Það er bara þannig að það er allt á fleygiferð núna um það hvernig menn ætla að bregðast við þessu. Nýjustu upplýsingar frá forsætisráðherra Breta benda til þess að þeir séu ekki einu sinni að huga að því að vera þátttakendur á innri markaði Evrópusambandsins. Þess vegna höfum við verið á þeirri skoðun, vegna þess hve Bretar eru mikilvægir í utanríkisverslun okkar, sem verið hefur um aldaraðir, að við þurfum að sjá hver framvinda mála verður hjá Evrópusambandinu áður en við förum að taka önnur skref. (BirgJ: En ef þjóðin vill fara í aðildarviðræður?) — Ef þjóðin hefur áhuga á því að sækja um aðild að Evrópusambandinu þarf fyrst að vera þjóðaratkvæðagreiðsla um það. Það hefur alltaf verið mín skoðun.

Varðandi Brexit þá þarf að fara í mikla vinnu og við erum byrjuð á því. (Gripið fram í.) — Ég er að skýra það út hvernig við þurfum að nálgast þetta viðfangsefni. Við þurfum fyrst að gera hagsmunagreiningu á Brexit. Það er það sem við erum að gera. Og ef farið verður í þjóðaratkvæðagreiðslu og það er vilji til þess þá verður það að sjálfsögðu gert.

(Forseti (ÞórE): Forseti biður þingmenn að virða það að sá hefur orðið sem er í ræðustól.)