145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

viðvera stjórnar og afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Nú má eiginlega segja að mér detti allar dauðar lýs úr höfði. Mér finnst þetta nánast fyndið. Hæstv. forseti sagði fyrr í morgun að ekki hefði náðst samtal til að komast að niðurstöðu um það hvaða málum eigi að ljúka. Nú kemur í ljós af hverju samtalið næst ekki. Það er vegna þess að formaður og varaformaður annars stjórnarflokksins eru á ferðalagi um landið í nákvæmlega sama tilgangi og við ættum að vera það líka, þ.e. þeir eru í kosningabaráttu. Hér sjáum við fyrir okkur hæstv. utanríkisráðherra, varaformann Framsóknarflokksins, þannig að gagnálykta má að þetta séu formaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður hans sem eru víðs fjarri þingstörfum. Það er þess vegna, vegna fjarveru þeirra, sem ekki er hægt að eiga samtölin sem eiga að leiða til einhvers konar niðurstöðu. Ég tók ekki þátt í umræðum um fundarstjórn forseta í morgun en nú er svo fram af mér gengið, frú forseti, (Gripið fram í.) að mér finnst ekki hægt annað en að fresta þessu þingi (Forseti hringir.) þangað til hægt er að færa þann herramann sem stýrir Sjálfstæðisflokknum hingað til þings þannig að hægt sé að eiga við hann samtal. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)