145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það olli okkur þingflokksformönnum minni hlutans mjög miklum vonbrigðum að á fundi þingflokksformanna með forseta í hádeginu var ekki hægt að ná neinu samkomulagi. Það liggur ekkert fyrir um hvernig starfsáætlun verður fyrir þessa viku og hún mun ekki liggja fyrir fyrr en formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins koma aftur heim úr kosningabaráttu sinni úti á landi. (Gripið fram í.)

Af hverju í ósköpunum var ekki haldinn fundur t.d. í gærkvöldi? Ég hef oft farið á fundi þegar ég hef verið í einhverjum samkomulagsviðræðum á öllum tímum dagsins, á hvaða degi sem er, meira að segja fundað á Þorláksmessu eða gamlársdag. Mér finnst sú afsökun að ráðherra hafi oft komið hér til svara ekki vera fullnægjandi og vil vekja athygli á því að hér er þessi dagskrá í fullkominni óþökk minni hlutans.