145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka kröfu mína til hæstv. forseta um að hann fresti fundi við þessar aðstæður. Ég var formaður Samfylkingarinnar eftir að starfsáætlun var runnin út fyrir síðustu kosningar og var á kosningaferðalagi úti á landi. Forseti þingsins hringdi bara í mig og sagði: Það verður ekki boðað til fundar í dag ef formaður Samfylkingarinnar er ekki í bænum. Og þannig var það bara, enda stóð þáverandi hæstv. forseti í ístaðinu gagnvart framkvæmdarvaldinu og meiri hluta þings fyrir hönd Alþingis. Ég hlýt að gera þá sömu kröfu til forseta nú. Það er ekki boðlegt að formaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sem eru með mál á dagskránni í dag, séu á kosningaferðalagi úti á landi; og að minnihlutaflokkarnir eigi að sæta svona ofríki af hálfu meiri hlutans. Forseta ber að verja þingið og minni hluta þingsins og lýðræðislegar leikreglur í landinu á svona tímum. Það er grundvallarskylda forseta.