145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Með hliðsjón af svari virðulegs forseta við spurningu minni áðan legg ég líka til að við sleppum þessum þingfundi þar til fólk hefur náð að tala saman.

Ég vil vekja athygli á því að þó að hæstv. ráðherrar séu austur á landi er hægt að hafa samskipti. Það er hægt að fara yfir þessa lista, það er hægt að forgangsraða á þeim og það er hægt að tala um þá.

Það er kannski óvenjulegt að slík samtöl fari þannig fram, en nú eru líka óvenjulegar aðstæður. Það er svo sem ekki óvenjulegt að við förum fram yfir starfsáætlun, það er hins vegar óvenjulegt að við gerum það á lengsta þingi sögunnar og sömuleiðis að við gerum það korteri fyrir kosningar. Það dregur úr getu flokka sem hér sitja til að taka þátt í kosningabaráttunni. Það kemur niður á lýðræðinu.

Það er alvarlegt og við eigum að taka það alvarlega. Við eigum að bíða með þennan þingfund þar til þetta fólk kemur sér saman um að tala saman. Svar virðulegs forseta um að það verði bráðum, eða hvernig sem virðulegur forseti orðaði það, er ekki nóg. Það á að vera í dag.

Virðulegi forseti. Rétta svarið er: Í dag.