145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að halda áfram þar sem frá var horfið um þá ósanngirni sem felst í þessari stöðu. Það eru kosningar í þessum mánuði og þingið er í óvissu. Flokkarnir eiga að sitja við sama borð þegar kemur að möguleikum til að skipuleggja kosningabaráttu og lykilfólki í þessum flokkum er haldið í óvissu á meðan sumir eru örugglega að vinna eftir einhverri áætlun. Er það t.d. áætlun forustufólks stjórnarflokkanna að taka smákosningabaráttu núna um landið, en halda öllum hinum hér og koma svo í þingið einhvern tímann í lok vikunnar og gera eitthvert samkomulag, vinna tíma? Ef formenn stjórnarflokkanna vinna eftir einhverri slíkri áætlun, getur hæstv. forseti kannski komist að því fyrir hönd okkar hinna í þinginu hvort við megum vita af henni? Það eru kannski helst þeir sem sitja við það borð sem geta gert einhverja áætlun og staðið við hana. Við hin vitum ekki neitt. Það gengur ekki. (Forseti hringir.) Það er ólýðræðislegt. Það er ósanngjarnt. Það er óréttlátt og hæstv. forseti á að beita sér (Forseti hringir.) fyrir því að sú staða verði löguð.