145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ber mikla virðingu fyrir forseta, en ég get ekki undan því vikist að benda forseta á að það sem hann er að segja núna um að ná utan um verkefnið, koma einhverjum ramma utan um verkefnin og þau mál sem fram undan eru, er hann búinn að segja sleitulaust í fimm til sex vikur. Virðulegur forseti er alltaf að segja það sama við okkur hér. Það er komið að því að við verðum að horfast í augu við að það er enginn sem getur tekið utan um þessar aðstæður annar en Alþingi sjálft undir forustu forseta með því að hætta hér þingfundum og setjast yfir það hvað raunhæft er að klára og það sem er raunhæft að klára er eingöngu það sem er í sátt. Við erum komin fram yfir síðasta dag. Þinginu er lokið. Ríkisstjórnin er rúin trausti. Umboðið er farið. Við erum að fara í kosningar. Hér verða engin mál kláruð önnur (Forseti hringir.) en þau sem eru í fullkominni sátt. Það er veruleikinn.