145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á það að forseti slíti þessum þingfundi þar sem við komumst ekki lengra með verkefni dagsins fyrr en formenn allra flokka horfast í augu við veruleikann, allra flokka. Ég átta mig á því að forseti er í þingflokki hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar, en það breytir því ekki að það er óþolandi framkoma við pólitískan veruleika dagsins í dag og Alþingi að fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sé úti á landi. Þar með er hæstv. ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins að gefa skít í Alþingi. Þannig er það. Það er ekki annað þolandi, virðulegi forseti, en að við hættum þessum þingfundi, látum ekki lítilsvirða Alþingi með þessum hætti og (Forseti hringir.) næsti fundur sem haldinn verði hér í þinghúsinu (Forseti hringir.) verði ekki þingfundur heldur fundur (Forseti hringir.) með formönnum flokkanna þegar menn horfast í augu við sínar skyldur hér.