145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framsal íslenskra fanga.

790. mál
[15:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég hef lagt hér fram fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra sem varðar framsal íslenskra fanga sem eru í fangelsum erlendis. Tilefnið er vitaskuld sú staðreynd að af og til koma upp dapurleg tilvik þar sem íslensk ungmenni verða uppvís að því að smygla fíkniefnum í fjarlægum löndum og þurfa fyrir vikið að dúsa, stundum árum saman við skelfilegar aðstæður, í fangelsum sem oft eru yfirfull, þar sem mannréttindi þeirra eru fótum troðin og aðbúnaður allur skelfilegur og örlög þeirra verða oft hræðileg. Margir gætu eðlilega sagt sem svo að þeir sem fremja glæp eigi að taka út sína refsingu. Vissulega, en þessi mál eru hins vegar yfirleitt miklu flóknari og dapurlegri en birtist á yfirborðinu. Við höfum öll skyldum að gegna gagnvart öllum þegnum ríkisins. Við þurfum líka að gæta mannréttinda fanga og ekki síst þeirra sem eru dæmdir til refsingar við ömurlegar aðstæður.

Lögreglan, bæði hér heima og líka hjá Europol, getur staðfest að stór hluti þeirra sem lenda í þeim aðstæðum að verða burðardýr er yfirleitt ungar stúlkur. Mjög oft hafa þær engan sakaferil að baki, en hafa lent í neyslu; þær skulda dílerum vegna neyslunnar og eru neyddar til þess að greiða skuldina með því að flytja fikniefni á milli landa, alltaf með hótunum, stundum barsmíðum. Langoftast er logið að þeim hvað magn varðar og stundum vita þær ekki einu sinni að þær eru að flytja fíkniefni. Þær eru fórnarlömb misneytingar. Þær kunna að vera aðilar að glæp, en þær eru samt tvímælalaust fórnarlömb sjálfar.

Einstaklingum í þessari stöðu þarf að hjálpa. Það verður best gert með því að fá þær til síns heimalands til afplánunar og eftir atvikum milda refsingar ef um mjög augljósa misbeitingu er að ræða, eins og er títt. Þetta eru hin alþjóðlegu lögregluyfirvöld farin að skilja. Þau eru farin að haga sér í samræmi við það.

Það er mjög mikilvægt að undirstrika það líka að það er álit lögreglunnar að í tilvikum sem þessum, þar sem misneytingu er beitt, þá fremji viðkomandi yfirleitt aldrei frekari slíka glæpi á lífsleiðinni sem í sjálfu sér undirstrikar að það er ekki glæpahneigð eða gróðavon heldur misnotkun sem leiddi til glæpsins og þá um leið að stúlkurnar eru fórnarlömb.

Þessi fyrirspurn er lögð fram af sérstöku tilefni. Nýlega var íslensk stúlka tekin í Brasilíu og hefur fengið dóm. Það bendir allt til þess að hún hafi verið fórnarlamb frekar en glæpamaður. Það er þess vegna sem ég vil taka þetta mál upp með þessum hætti. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort unnt sé að koma á framsali frá Brasilíu til Íslands án þess að á undan sé búið að gera sérstakan fangaskiptasamning. Í öðru lagi: Liggur slíkur samningur fyrir? Ef ekki, er fyrirhugað að gera hann?