145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framsal íslenskra fanga.

790. mál
[15:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Bara örstutt athugasemd þótt ég ætli ekki að skyggja á hv. þingmann eða hæstv. ráðherra, enda spurningin þeirra. En mér finnst mikilvægt við þessa umræðu að minnast á tvo lesti sem hrjá bæði okkar samfélag og samfélagið í Brasilíu; þó okkur að miklu minna leyti, sem betur fer. Það eru annars vegar viðhorfin til fíkniefna eða vímuefna og hins vegar almenn refsigleði. Það er almennt vinsælt að vilja refsa fólki, það er vinsælt hér og það er vinsælt annars staðar; hér þó ekki það vinsælt og við eigum að þakka fyrir það. Við eigum að vera þakklát fyrir það að hér sé þó almenn viðleitni til að leggja frekar áherslu á betrun en refsingar. En krafan kemur alltaf upp um að refsa sem harðast þegar óvinsælt fólk fær dóm, sama hvert brotið er næstum því.

Hvað varðar fíkniefnastríðið, sem er stríð — það er stríð, ekki hér en við eigum að læra okkar lexíu og draga úr þeim meinum sem þessi tvö atriði eru, refsigleðin og vímuefnastríðið; (Forseti hringir.) þó að blessunarlega sé ekki jafn illa komið hér og víða annars staðar.