145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framsal íslenskra fanga.

790. mál
[15:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil bæði þakka hv. fyrirspyrjanda góða fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svarið og heita á hæstv. ráðherra að beita sér í þessu efni á alþjóðlegum vettvangi, og sérstaklega þótt ekki liggi fyrir framsalssamningar við þau lönd þar sem íslenskir borgarar geta lent í því að sæta fangelsisrefsingu. Við höfum mörg hér í þessum sal talað fyrir breytingum í áherslum í refsistefnu, að horfa meira til betrunar og nýrrar þróunar í fangelsismálum. Við höfum líka talað fyrir því að hætta áherslunni á glæpavæðingu fíkniiðnaðarins, ef svo má að orði komast, og taka á fíklum í vanda (Forseti hringir.) með þeim úrræðum sem fíklar í vanda eiga skilið, þ.e. að litið sé á fíkn þeirra og það vandamál sem hún skapar frekar en að litið sé á fíkn sem glæp.