145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framsal íslenskra fanga.

790. mál
[15:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Líkt og aðrir vil ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þessa fyrirspurn sem og hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langar að taka undir með þeim sem hafa í þessu samhengi komið sérstaklega inn á það sem snýr að burðardýrum; allt satt og rétt sem sagt hefur verið um að það er oft fólk sem beitt hefur verið ofbeldi og kúgun og hefur mjög lítið val um þær aðstæður sem það er komið í. En ég vil líka taka undir með þeim sem hafa fært málið út í stærra samhengi þegar kemur að því að líta á fangelsismál í því ljósi að hún eigi að snúast um betrunarvist. Þar tel ég að við sem þjóð séum þó komin lengra á veg en margir aðrir þó að við þurfum að komast miklu lengra. Þess vegna skiptir máli að til að mynda hæstv. ráðherra og aðrir sem í þá aðstöðu komast (Forseti hringir.) tali því máli, máli betrunar, þegar kemur að umræðum um fangelsisvist.