145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framsal íslenskra fanga.

790. mál
[15:45]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir fyrirspurn hans, sem ég held að sé mjög mikilvæg. Eins og fram kom í máli hans er oft um að ræða veikburða fólk og fórnarlömb miklu stærri og hættulegri manna en það fólk er sem lendir í fangelsi, Íslendingar í fangelsum í útlöndum. Af því að við erum nýbúin að samþykkja geðverndarstefnu hér á þinginu er sjálfsagt að skoða þetta mál í því samhenginu. Ef hún er ekki orsök þá er fíkniefnaneysla oft og tíðum afleiðing þess að eiga við geðræn vandamál að stríða. Því held ég að það sé mjög mikilvægt að íslenskir fangar erlendis fái að komast heim og njóta þeirrar bestu geðheilbrigðisþjónustu sem við getum veitt þeim hverju sinni. Það skiptir mjög miklu máli og við styðjum það.