145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

umræða um samgönguáætlun og fjarvera innanríkisráðherra.

[15:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við höfum lagt fram dagskrártillögu sem lýtur að dagskrá dagsins sem getur auðvitað ekki gengið fram eins og hún hefur verið kynnt. Hér er mikið þarfamál á dagskránni, samgönguáætlun. Slegið hefur verið Íslandsmet í framkvæmdaleysi á þessu kjörtímabili, því miður ekki bara í nýframkvæmdum heldur líka í viðhaldi, sem er orðið svo ábótavant að holur eru helst farnar að einkenna vegakerfi landsins. Það er sannarlega mikilvægt að taka þá umræðu og fara í gegnum þær breytingartillögur sem komið hafa frá bæði meiri hluta og minni hluta. Það er auðvitað ekki hægt að gera það, virðulegur forseti, að ráðherra málaflokksins, Ólöfu Nordal, fjarstaddri sem er nú einhvers staðar austur á landi á vegum Sjálfstæðisflokksins. Ég treysti því að forseti taki hér frumkvæði og hætti við þessar fyrirætlanir og flytji umræðuna fram á morgundaginn þegar ráðherra getur tryggilega verið við hana.