145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

umræða um samgönguáætlun og fjarvera innanríkisráðherra.

[16:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nú vill svo til að ég er í þriggja manna þingflokki sem hefur þingmenn í Reykjavíkurkjördæmi norður, Reykjavíkurkjördæmi suður og Suðvesturkjördæmi. Við höfum enga þingmenn í Suðurkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi. Sumir halda að þetta þýði að við höfum einfaldlega minna að gera. Það er ekki þannig. Við þurfum líka að sinna okkar pólitísku skyldum úti á landi og fólk vill hitta þingmenn. Það vill spyrja þá hvers vegna þeir hafi gert eða sagt hitt eða þetta. Það vill koma með tillögur. Það vill spyrja. Það er ýmislegt sem kjósandinn, virðulegi forseti, vill segja okkur, spyrja okkur að o.s.frv. Það kemur sér raunverulega illa að heyra að hæstv. ráðherrar séu úti á landi í kosningabaráttu vegna þess að við viljum auðvitað líka vera í kosningabaráttu til þess að koma okkar flokki að. Það gengur ekki að ríkisstjórnin misnoti Alþingi þannig að skilja það eftir hér og fara sjálf í kosningabaráttu. Það er ekki á neinn hátt sanngjarnt, hvorki gagnvart þingflokkunum né gagnvart kjósandanum. Þetta gengur ekki. Þessu verður að linna. Við eigum ekki að halda (Forseti hringir.) hér fundi fyrr en menn geta drattast í bæinn og talað saman um það hvernig þeir sjái fyrir sér að ljúka þessu þingi þannig að flokkarnir hafi jafnræði af.