145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

umræða um samgönguáætlun og fjarvera innanríkisráðherra.

[16:03]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég má til með að taka undir það sjónarmið sem hefur verið reifað hér af allmörgum, þ.e. jafnræði flokkanna til þess að komast í kosningabaráttuna og eiga samtalið við kjósendur, sem er líka skylda kjörinna fulltrúa í aðdraganda kosninga, mikilvæg skylda. Það gengur auðvitað ekki og er ekki nein sanngirni í því að stjórnarflokkarnir skuli taka sér leyfi og vald til að ræða við kjósendur, fara í kosningaferðalag og eiga fundi með kjósendum, á sama tíma og fulltrúum annarra flokka er ætlað að sitja hér að störfum í þágu Alþingis, störfum sem eru auk þess í fullkominni ráðleysu ef marka má það skipulagsleysi sem nú ríkir hér í þinginu, þar sem engin starfsáætlun liggur fyrir og engin samtöl eru í gangi milli forustumanna flokkanna og þingflokksformanna um hvert framhaldið eigi að vera. Þetta nær auðvitað engri átt, virðulegi forseti.