145. löggjafarþing — 163. fundur,  4. okt. 2016.

störf þingsins.

[15:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar mikið til að tala um störf þingsins en aðrir hafa talað nóg um þau og sagt allt sem segja þarf. Mig langar að vara við fyrirbæri sem er kallað dauður lagabókstafur. Dauður lagabókstafur er frekar algengur, t.d. var 26. gr. stjórnarskrárinnar á sínum tíma talin vera af sumum dauður bókstafur þar til hún var nýtt. Þeir geta lifnað við, að því er virðist. Það er einn svokallaður dauður lagabókstafur í áfengislögum sem bannar framleiðslu á áfengi til einkaneyslu. Þrátt fyrir það er framleiðsla á áfengi til einkaneyslu afskaplega algeng. Fólk hefur almennt ekki einu sinni fyrir því að fela það. Reyndar er til félag, Fágun, sem fjallar um gerjun og snýst um gerjun. Þetta félag hefur sent inn umsögn til Alþingis, mætt á fund til allsherjar- og menntamálanefndar eða velferðarnefndar, ég man ekki hvort, og haldið bjórkeppni opinberlega fyrir opnum tjöldum og undir berum himni þar sem fjölmiðlar komu og ræddu við aðstandendur þess. Það er því mjög greinilegt að framleiðsla á áfengi til einkaneyslu er ekki talin hneykslanleg í samfélaginu og það er ekkert ákall um að framfylgja þessum lögum. Þrátt fyrir það er refsiramminn sex ár. Sem betur fer er lögunum ekki framfylgt.

Þetta snýst ekki um viðhorf fólks til áfengis enda er áfengi skaðlegt, það er óumdeilt, heldur er hér um að ræða hegðun sem er mjög algeng og hún er ekki talin hneykslanleg af almenningi en það er samt hár refsirammi í þessum dauða lagabókstaf. Ef yfirvöld færu allt í einu að framfylgja honum er óljóst hvað yrði úr. Ég tel að þetta sé ógn við rétt borgaranna. Ég tel að þetta sé hættulegt í réttarríki sem vill að borgarinn sé upplýstur um hvað hann megi gera og hvað ekki. Þetta eru í skásta falli misvísandi skilaboð. En vel á minnst, lög eru oft sett til að senda einhver skilaboð. Ég held að það sé rangt. Við eigum ekki að senda skilaboð með lögum. Lög hafa raunverulega verkan, raunveruleg (Forseti hringir.) áhrif á líf fólks. Við þurfum að hugsa um það þegar við setjum lög hver raunveruleg áhrif laganna eru (Forseti hringir.) og gera gangskör að því að uppræta dauðan lagabókstaf. Hann er ógn við réttindi borgaranna.


Efnisorð er vísa í ræðuna