145. löggjafarþing — 163. fundur,  4. okt. 2016.

störf þingsins.

[15:59]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hafði einmitt hugsað mér að tala um málefni Bakka í Norðurþingi. Ágætt tækifæri gefst nú þegar hv. þm. Björt Ólafsdóttir tekur málið til umræðu. Hún telur að ráðherra geti ekki beðið eftir að fá úrskurð. Nú er það svo að þær framkvæmdir sem þarna eru í gangi við línulögn krefjast þess að ekki sé frost í jörð. Við erum að ganga inn í október, vonandi ekki inn í harðan vetur en vetur þar sem allra veðra getur verið von. Sá tími sem er til framkvæmda er mjög að styttast. Það þýðir að umræddar framkvæmdir tefjast fram á næsta vor, ef þeim verður þá haldið áfram þá. Engin vissa er fyrir því. Ég veit að norður á Húsavík og í Norðurþingi hafa menn verulegar áhyggjur af því hvernig þessu máli muni vinda fram og hverjar lyktir þess verði.

Þar fyrir utan vil ég segja að trúverðugleiki íslenskra stjórnvalda er gersamlega að fara í vaskinn ef þetta mál verður látið klúðrast. Þetta varðar ekki bara náttúruna, við viljum öll veg hennar sem mestan. En við verðum líka að gera okkur grein fyrir að hér búa Íslendingar. Þeir þurfa að geta nýtt landið og náttúruna til þess að búa hér. Í húfi er atvinnulegt og fjárhagslegt öryggi þeirra sem búa í Þingeyjarsýslu og í Norðurþingi ef þetta mál hrynur. Ef það verður ekki að neinu.

Varðandi það að verið sé að leita til lögmanna Logos: Það eru fjölmargir lögmenn þar. Þeir vinna fyrir ýmsa aðila. (Forseti hringir.) Það er sannarlega passað upp á að ekki sé verið að blanda saman vinnu einstakra lögmanna og einstakra mála. Það hefur komið fram í fjölmiðlum.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna