145. löggjafarþing — 163. fundur,  4. okt. 2016.

störf þingsins.

[16:02]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætla hvorki að tala um Bakka né LÍN. Ég ætla hins vegar að tala um Donald Trump. Ég hef verið að fá, eins og mér skilst margir aðrir þingmenn, pósta frá Donald Trump undanfarið þar sem hann biður mig um að gefa sér peninga. Ég veit ekki hvernig hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að ég eigi eitthvað aflögu handa honum (Gripið fram í: Þú verður nú að gefa …) eða hvernig hann hefur komist að því að ég geti hugsanlega kosið hann. Ég mun aldrei kjósa hann. Ég fæ líka pósta frá syni hans. Sama hvað ég reyni að skrá mig af þessum póstlistum, alltaf koma póstarnir. Um helgina bað ég Donald Trump um að taka mig af þessum póstlista með orðalagi sem ég ætla ekki að endurtaka hér.

Þessir póstar frá þessum manni, þessum forsetaframbjóðanda í Bandaríkjunum, ættu að vera okkur öllum áminning um að það er svo ævintýralega rangt að segja að pólitík snúist ekki um neitt, það sé enginn munur á pólitískum hugsjónum. Þarna er maður sem er boðberi kvenhaturs, ójafnréttis, hann elur á ótta, borgar ekki skatt, ég veit ekki hvaða mörk hann fer ekki yfir þegar kemur að siðferði.

Mig langar svo að tala um þetta hér því að ég vil bara segja í eins konar framboðsræðu fyrir hönd míns flokks, upp að því marki sem ég held framboðsræður að þessu sinni, hversu stoltur ég er að tilheyra stjórnmálaafli sem er algerlega á hinum ásnum gagnvart þessum gildum. Á síðu Félagsvísindastofnunar er hægt að taka próf: Hvar standa flokkarnir? Hvar stendur fólk gagnvart flokkunum? Björt framtíð, frjálslyndasti flokkurinn á Íslandi, skorar hæst þegar kemur að alþjóðlegum gildum. Við höfum verið staðfastir boðberar mannréttinda á þessu kjörtímabili. Við höfum staðið vaktina þegar kemur að lýðræðislegum vinnubrögðum, við höfum leitað lausna, staðið fyrir samtali manna á milli, við erum málsvarar fjölbreytni. (Forseti hringir.)

Ef þið, eins og ég, fílið ekki Donald Trump þá kjósið þið Bjarta framtíð. [Hlátur í þingsal.]