145. löggjafarþing — 163. fundur,  4. okt. 2016.

störf þingsins.

[16:04]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég fæ ekki pósta frá Donald Trump. Ég fíla ekki Donald Trump, en ég ætla ekki að kjósa Bjarta framtíð.

Ég ætla að gera að umtalsefni hér árásir á heilbrigðisstofnanir í stríðshrjáðum löndum. Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum og venjurétti á heilbrigðisþjónusta að njóta verndar í stríðsátökum. Því eru árásir sem beinast gegn heilbrigðisstofnunum í raun stríðsglæpir. Slíkar árásir hafa færst í vöxt í stríðshrjáðum löndum eins og t.d. Sýrlandi, Afganistan og Jemen. Hætta er á að þetta ómannúðlega og ólöglega framferði geti orðið að nýju viðmiði, sem er algjörlega óásættanlegt. Þess vegna tel ég að þær þjóðir sem innan Sameinuðu þjóðanna eru, og þar erum við Íslendingar meðal stofnenda, eigi að senda skýr skilaboð til umheimsins að þær fordæmi árásir á heilbrigðisþjónustu og styðji samtök eins og Lækna án landamæra í því að berjast gegn því að þetta ómannúðlega, ólöglega framferði verði að nýju viðmiði. Höldum í heiðri alþjóðleg mannúðarlög sem og venjurétt sem gerir það að verkum að heilbrigðisþjónusta á að njóta verndar í stríðsátökum.

Efnisorð er vísa í ræðuna