145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórnarmeirihlutinn er hættur á þessu þingi, hann er hættur að vinna. Ég sat nærri því fjögurra klukkustunda fund í fjárlaganefnd í gær um mikilvægt mál sem hér er á dagskránni, lífeyrismál opinberra starfsmanna. Þar voru tveir þingmenn stjórnarmeirihlutans og báðir að hætta á þingi. Aftur í morgun voru sömu tveir mættir einir í fjárlaganefnd.

Virðulegi forseti. Þarf frekari vitnanna við? Það er enginn þingmaður stjórnarmeirihlutans sem hyggur á endurkjör sem virðir þingið mætingu. Þeir mæta ekki. Þetta gengur ekki. Fjárlaganefnd var þannig skipuð tvo morgna í röð að þar sjást ekki þingmenn aðrir en þeir sem ekki hyggja á endurkjör. Þetta er grafalvarlegt mál. Hæstv. forseti verður að taka stjórn þingsins í sínar hendur, hann hefur tólin og tækin. Hann verður að gera hlé á þingfundum þangað til að (Forseti hringir.) stjórnarmeirihlutinn kemur með málalista og það liggur í augum uppi að það geta ekki verið ágreiningsmál (Forseti hringir.) því að tíminn til að ræða ágreiningsmál er úti þegar starfsáætlun er lokið.