145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:49]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að heyra að hæstv. forseti ætlar að kanna þetta mál með mönnun í nefndum. Í gær var ég á fundi atvinnuveganefndar sem aðeins þrír nefndarmenn úr stjórnarmeirihlutanum sátu á meðan verið var að taka út og fjalla um stór og mikilvæg mál, eins og til að mynda raflínur að Bakka. Ég spyr: Til hvers að eiga það samtal, sem þó er mikilvægt, ef fólk ætlar ekki einu sinni að mæta til að hlusta? Stjórnarmeirihlutinn ætti að hafa nóg af þingmönnum sem geta komið inn í staðinn ef einhver forfallast.

Staðan er þannig að á mánudag voru ekki ráðherrar í fyrirspurnatíma, sem við eigum annars heimtingu á að séu til staðar. Hæstv. fjármálaráðherra var þar ekki, hæstv. innanríkisráðherra var þar ekki því að þau voru að sinna kosningabaráttu sinni. Ég vil segja það að ef forseti ætlar ekki að slíta þingi þá skulum við bara vera hér til 28. október (Forseti hringir.) og við notum þennan míkrafón í kosningabaráttu okkar. Það verður erfitt (Forseti hringir.) fyrir stjórnarliða sem sjá ekki sóma sinn í því að mæta í vinnuna.