145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær kynnti Samfylkingin tillögur um aðgerðir fyrir fyrstuíbúðarkaupendur undir yfirskriftinni Forskot á fasteignamarkaði. Við viljum gefa fyrstuíbúðarkaupendum forskot með því að veita þeim aðgang að því að fá útgreiddar vaxtabætur fyrstu fimm ára af kauptíma fyrir fram til að hjálpa til við að kljúfa kostnað af útborgun. Í dag er staðan sú, og það er alvarlegasta vandamálið á fasteignamarkaði í dag, að fullt af fólki hefur ekki fengið tækifæri til að komast inn á fasteignamarkaðinn en borgar leigu sem er í mörgum tilvikum jafnvel tvöfalt það sem það mundi borga í afborgun af lítilli íbúð.

Við viljum gefa fólki tækifæri til að komast út úr þeirri stöðu. Það er brýnasta verkefnið á fasteignamarkaðnum í dag. Samhliða viljum við byggja upp leigumarkað. En við getum ekki sagt við allt það fólk sem nú bíður eftir úrlausn á vonlausum leigumarkaði að það þurfi að bíða árum saman eftir að þau hús verði fullbyggð. Það þarf lausnir strax. Eina gagnrýnin sem ég hef heyrt á þetta útspil er sú að það muni leiða til hækkunar á fasteignaverði. Það er nú því miður þannig að allar leiðir sem auka aðgang að lánsfé og fjölga þeim sem geta keypt, hafa áhrif á fasteignaverð til hækkunar. Það er óhjákvæmilegt. En þessi aðgerð er prógressíf, hún er framsækin og nýtist þar af leiðandi best þeim sem minnstar hafa tekjurnar, öfugt við leið ríkisstjórnarinnar, fyrstu fasteign, sem nýtist ekki til fulls nema þeim sem hafa 1.400 þús. kr. í mánaðarlaun. Þá er verið að veita fólki ríkisstyrk til að bjóða enn hærra í íbúðir sem það hefur hvort sem er efni á að kaupa. Leiðin sem við leggjum til nýtist fyrst og fremst fólki á lágum og meðaltekjum og þeim mun betur sem fólk er á lægri tekjum, losar fólk úr fáfæktargildru, kemur þeim úr óöryggi leigumarkaðar og vísar veginn fram á við fyrir fólk til farsældar.


Efnisorð er vísa í ræðuna