145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:23]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þótt margt sé óljóst um þinglok þá er alveg ljóst að senn líður að þinglokum. Ég sem hér stend vil þess vegna nota þetta tækifæri, því að nú fækkar þeim tilefnum sem gefast til að ræða um störf þingsins næstu daga, til að kveðja Alþingi.

Ég hef upplifað á þessum vinnustað tvö sérkennileg kjörtímabil í sögu þingsins. Eftirhrunstímabilið sem var það erfiðasta og átakamesta sem sögur fara af og síðan það sérkennilega og skerta kjörtímabil sem nú er að líða undir lok. Á fyrra tímabilinu urðu átök og úlfúð til mikils skaða fyrir virðingu Alþingis. Það hefur breyst til batnaðar á þessu kjörtímabili og má vafalaust þakka að verulegu leyti málefnalegri stjórnarandstöðu. En Alþingi á enn langt í land með að endurvekja traust meðal kjósenda í því andrúmslofti stjórnmálaleiða og ráðvillu sem nú gætir í samfélagi okkar og birtist ítrekað í skoðanakönnunum.

Hér á þessum vettvangi starfar margt frábært og hæft fólk, en Alþingi er þó á margan hátt fast í hefðum sem eru að sumu leyti steinrunnar en geta líka varið þessa stofnun og viðkvæma stjórnsýslu hennar í miklum ágangi stjórnmálaumræðunnar. Hins vegar hefur mér oft fundist ógagnsæi og jafnvel baktjaldamakk vera of ríkur þáttur í starfi Alþingis og mér finnst líka að þingmennirnir þurfi sjálfir að standa betur með bæði þinginu sem löggjafar- og lýðræðisstofnun og líka með sjálfum sér. Vera óhræddir að standa vörð um kjör sín, starfsaðstæður og réttindi, verja þingið og efla virðingu þess með framgöngu sinni og umtali.

Virðulegi forseti. Ég geng héðan rík af reynslu og minningum sem ég mun vegsama um ókomna tíð. Ég er þakklát fyrir að hafa starfað hér. Ég er þakklát fyrir þann trúnað sem mér var sýndur þegar ég var fyrst kjörin hingað inn árið 2009. Ég er þakklát því fólki sem hér hefur orðið á vegi mínum, starfsfólki Alþingis, samverkafólki í stjórnmálum og mótherjum mínum sem margir hverjir hafa kennt mér ýmislegt, hver á sinn hátt. Alþingi óska ég blessunar og þakka fyrir mig.


Efnisorð er vísa í ræðuna