145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil sömuleiðis taka undir þakkir til hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, sem hélt hér mjög góða ræðu. Ég mun svo sannarlega, ef ég verð hér áfram, sakna samstarfsins við hana þótt við séum ekki alltaf sammála, ég og hv. þingmaður.

Aðeins út af því sem síðasti hv. þingmaður nefndi þá er ég sammála því að það á ekki að ganga fram með þeim hætti sem hv. þingmaður lýsti. En ef við ætlum hins vegar að gagnrýna mannréttindabrot í Evrópu í hvert skipti sem þau er framin þá er af nógu að taka, því miður.

Ég vildi líka geta þess, virðulegi forseti, að hér talaði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon um auðlegðarskattinn. Ég vil vekja athygli á því að þeir sem greiddu auðlegðarskatt voru að stærstum hluta, og þetta er hér í þingskjölum, tekjulágir eldri borgarar sem áttu skuldlausar eignir. Aðilar sem áttu skuldlausar eignir voru teknir út og þeir þurftu að greiða þennan skatt. Þeim aðilum var sleppt sem áttu ríkistryggðar eignir eins og lífeyrisréttindi, sem voru tiltölulega fáir einstaklingar, fyrst og fremst í stjórnmála- og embættismannastétt. Því fólki sem greiddi þennan skatt, og þurfti jafnvel að selja eigur sínar, var lofað að hann væri tímabundinn. Hann var tímabundinn og núverandi ríkisstjórn tók hann ekki af heldur uppfyllti loforðið sem síðasta ríkisstjórn gaf þessu fólki um það.

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja athygli á því að við höfum náð góðum árangri í að auka viðskiptafrelsi hér á Íslandi á þessu kjörtímabili. Við getum gert það vegna þess að við förum sjálf með okkar mál. Við höfum afnumið vörugjöld, afnumið tolla og það er nokkuð sem við eigum að halda áfram að gera. Ég vil vekja athygli á því, af því að það eru ekki margir meðvitaðir um það, að ef við gengjum í Evrópusambandið mundi verð á vörum frá löndum utan ESB hækka, (Forseti hringir.) það þyrfti að fjölga tollvörðum og auka kostnað verulega. Ég held að það sé mikilvægt að það sé haft í huga þegar við ræðum þessi mál á næstunni, virðulegi forseti.


Efnisorð er vísa í ræðuna