145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:37]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Okkur í þessum ræðustól verður tíðrætt um mannréttindabrot sem eiga sér stað úti í hinum stóra heimi. Nú er í fréttum — og kann að vera að við sem lesum fréttirnar vitum ekki alla málavexti — að í þessum töluðu orðum er verið að brjóta mannréttindi á litlum fimm ára dreng sem ákveðið hefur verið að senda til norskrar barnaverndarnefndar vegna þess að móðir hans, ung kona, átti við áfengisvandamál að stríða meðan hún bjó í Noregi. Hún hóf meðferð og þegar ljóst var að taka ætti af henni barnið ákvað hún að koma til Íslands. Hún hefur haldið áfram sinni meðferð, hún er virkur alkóhólisti en hún hefur verið edrú í langan tíma. Hún á hér fjölskyldu, en af því að hún var svipt forræði yfir drengnum sínum í Noregi — faðirinn býr í Danmörku og hefur engin afskipti af drengnum — þá á að taka þennan fimm ára dreng og flytja hann til Noregs og koma honum fyrir á fósturheimili á meðan fjölskylda hans hér á Íslandi og móðir hans er að taka á sínum málum og vinna í því sem að henni snýr. Þetta þýðir að þessi fimm ára drengur verður í fjórtán ár á fósturheimili í Noregi og móðir hans fær að hitta hann tvisvar á ári undir eftirliti.

Við tölum um mannréttindabrot á pólskum konum og við tölum um mannréttindabrot á fólki í Sýrlandi. Virðulegi forseti. Fyrir mig sem þingmann, fyrir mig sem móður og ömmu þá er þetta mannréttindabrot sem ég get ekki sætt mig við. Ég skora á hæstv. innanríkisráðherra og Barnaverndarstofu að ganga í málið nú þegar og koma í veg fyrir að þessi litli fimm ára drengur verði rifinn frá móður sinni og fjölskyldu á Íslandi og komið í fóstur í Noregi. (Gripið fram í: Hárrétt.)(Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna