145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, auðvitað á innanríkisráðuneytið að bregðast við í þessu máli. Það er alveg kristaltært í mínum huga að þessi litli drengur á að vera hér heima en ekki vera komið í fóstur bara vegna þess að norsk löggjöf heimilar það. Við getum vel gripið inn í og eigum að gera það. Ég vona svo sannarlega og tek undir þá áskorun að innanríkisráðherra geri það.

Mig langar að þakka hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur fyrir skemmtilegt samstarf sem við höfum átt á þessu kjörtímabili. Við höfum setið saman í allsherjar- og menntamálanefnd frá því að hún kom hér á þing. Hún er skeleggur ræðumaður og það er gaman að spjalla um lífið og tilveruna við hana. Ég óska henni alls hins besta í því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Mig langaði aðeins að gera að umtalsefni það sem við þingmenn minni hlutans stöndum frammi fyrir. Við getum ekki farið og rætt við kjósendur okkar um hvernig staðan er raunverulega af því að við erum föst hér. Eins og ég hef margoft sagt gumar ríkisstjórnin af góðum efnahagsbata og öðru slíku, en það er mikilvægt að hafa í huga að þar undir eru stöðugleikaframlögin, það er ekki endilega þannig að rekstur ríkisins sé raunverulega svo góður. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi auðlegðarskattinn áðan og tyggur í sífellu að hann hafi verið lagður á eldri borgara. Það er margbúið að segja að það er eitt af því sem má laga, þ.e. hvernig hann var settur fram, sem og aðrir skattar ef því er að skipta. Ríkasta prósentið á að leggja meira til.

Fjármálin, innviðirnir, samgöngurnar, skólamálin, flugið, geðheilbrigðismálin eru í molum. Ekki hefur tekist að manna sálfræðiþjónustu eins og heilbrigðisráðherra ætlaði að gera. Geðheilbrigðismál ungs fólks sérstaklega eru mjög stór og mikill vandi og það er gríðarlega mikilvægt að grípa þar til aðgerða til forvarna til framtíðar. Við þurfum að hugsa um það nú þegar við förum að ganga til kosninga: Hverjum við treystum til þessara verka?