145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það eru mér vonbrigði að heyra að engin samtöl hafi átt sér stað núna. Ég hafði satt að segja leyft mér að binda vonir við að nú mundi eitthvað fara að gerast. Það gengur ekki að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans tali eins og að hér sé eitthvert plan til að vinna eftir. Það er engin starfsáætlun í gangi og við verðum að taka mið af því í því hvernig við högum okkur hérna inni. Því get ég ekki gert annað en að beina enn og aftur til hæstv. forseta ósk um að fresta fundum þangað til þessi mál komast á hreint. Eftir það hvernig hæstv. forseti brást við í gær, að mínu mati vel með því að slíta þingfundi, vonaði ég að eitthvað (Forseti hringir.) mundi gerast en þetta var greinilega ekki nóg svo ég verð að halda áfram að brýna hæstv. forseta til góðra verka og til þess að standa með þinginu.