145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:24]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að árétta það að þegar ríkisstjórn hefur boðað til kosninga þá hefur hún misst það umboð sem hún hefur til að koma með ný mál og klára þau mál, eins og hún hefur nú verið að gera. Það er ástæða fyrir því að þing er vanalega rofið u.þ.b. mánuði fyrir kosningar. Það er gert til þess að fólk geti farið í kosningabaráttu. Það er ekki þannig að fordæmi séu fyrir því að trukka málum í gegn. (Gripið fram í: Árið 2009.) 2009. Þá var hrun, hv. þm. Jón Gunnarsson, þá var hrun. Hér varð siðferðislegt hrun sem heitir Panama-skjölin og þess vegna erum við að kjósa núna. Það er ekki út af því að hér hafi orðið bankahrun, hér varð siðferðislegt hrun stjórnarmeirihlutans. Þess vegna erum við að ganga til kosninga og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur þurfa að fara að gangast við því.