145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í hinni opinberu umræðu var því haldið fram af hæstv. ráðherra Gunnari Braga Sveinssyni og hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að það ætti aldrei að gefa upp kjördag vegna þess að stjórnarandstöðunni væri með því fært svo gríðarlegt vopn í hendur. Nú hefur komið á daginn að þeir höfðu ekki alveg rétt fyrir sér, þessir minnipokamenn í Framsóknarflokknum, a.m.k. að þessu leyti, vegna þess að hér hefur stjórnarandstaðan beðið eftir samtali og beðið eftir því að menn settust niður og færu yfir þau mál sem á eftir að klára og hvernig ætti að gera það.

Þegar menn komast að niðurstöðu með þau mál sem eru kláruð í þinginu á svona endaspretti eru menn yfirleitt að semja af sér réttinn til að tala í málum. Þá er stjórnarandstaðan að segja: Við erum tilbúin til að þessi mál fari í gegn og við ræðum þau ekki mikið, umfjöllun um þau verður kláruð í þingnefndum og þar fram eftir götunum, en það er ekki hægt að gefa þann rétt eftir þegar ekkert samtal er til staðar. Þá er ekkert um að semja ef menn ætla einfaldlega (Forseti hringir.) að fá að klára allan listann sinn. Ég minni þingmenn stjórnarmeirihlutans á það, af því að þeim verður tíðrætt um lýðræðislega kjörinn meiri hluta, að eftir rétt rúmar þrjár vikur verður nýr lýðræðislega kjörinn meiri hluti í landinu. Hann getur alveg eins og meiri hlutinn hér klárað þau mál sem fyrir liggja.