145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:31]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp vegna þess að mér þykir sérstakt þegar þingmenn ræða um það að umboð þingmanna sé runnið út. Ég var kjörin á þing í apríl 2013 og mitt umboð sem þingmanns rennur ekki út fyrr en á kosningadaginn, 29. október. Það að tala eins og umboð okkar sem erum í meiri hluta, í Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum, til þingsetu og ríkisstjórnarinnar sem situr í umboði þessara tveggja þingflokka sé ekki fyrir hendi er fáránlegt. Það er furðulegt að þingmaður skuli tala með þeim hætti vegna þess að hér hefur ekkert umboð runnið út, hér hafa engir nýir flokkar fengið meirihlutaumboð. Það kann að verða þannig í kosningunum 29. október, en það er ekki þannig. Þeir þingmenn sem hér sitja fyrir Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk hafa fullt umboð (Forseti hringir.) til 29. október.