145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

dagskrá næsta fundar.

[15:46]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Tilefni þessarar dagskrártillögu er fjarvera stjórnarmeirihlutans hér síðustu dægur og virðingarleysi stjórnarmeirihlutans gagnvart þinginu. Nú hefur mikið verið rætt síðustu mánuði og missiri um hnignandi virðingu Alþingis út á við. En það er orðið æðislæmt þegar þingmenn sjálfir og þeir sem eiga að bera þingstarfið uppi í krafti meirihlutavalds bera sjálfir ekki meiri virðingu fyrir þinginu en svo að þeir láta ekki sjá sig og ætla stjórnarandstöðunni að halda þingstörfum gangandi. Það er eitthvað mjög óeðlilegt við þá afstöðu, hún er umhugsunarefni, virðulegi forseti.

Svo ítreka ég það sem áður er fram komið og tek undir það með fleirum hér að verkefnaskráin er í raun og veru tæmd. Það er ekkert sem þarf að afgreiða í einhverjum hvínandi hvelli rétt fyrir kosningar nema hugsanlega hin auma samgönguáætlun sem (HöskÞ: Nei.) stjórnarmeirihlutinn lagði hér fram. (HöskÞ: Nei.) Það litla sem þar er þó lagt fram verður að komast til framkvæmda, og þyrfti að framkvæma meira en þar er lagt til. (Gripið fram í.) Það er það eina sem raunverulega er ástæða til að samþykkja hér. Að öðru leyti er ekki eftir neinu að bíða fyrir þá sem eru að bíða eftir að komast í kosningar. (HöskÞ: Mjög ósanngjarnt.)