145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

dagskrá næsta fundar.

[15:48]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það liggja í raun tvær tillögur fyrir þessum fundi núna. Önnur er breytingartillaga við dagskrá sem lögð er fram af minni hlutanum, þar sem svo klaufalega hefur verið staðið að verki að þar eru mestmegnis mál sem ekki eru komin út úr nefnd með formlegum hætti. Það er ákaflega sérstakt að kallað skuli vera eftir því að þau verði tekin án nefndarálita út úr nefndum. Látum það nú vera.

Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði áðan að nái tillagan ekki fram að ganga sé best að fresta þingfundi til þess að við vitum þá hvað við viljum yfir höfuð gera. Það liggur alveg fyrir af hálfu meiri hlutans í þinginu, við tökumst á um þessa tillögu. Verði hún ekki samþykkt er það vilji meiri hlutans að halda áfram með þá dagskrá sem liggur fyrir þessum þingfundi. Ég vona bara að þingmenn minni hlutans sýni þinginu þá virðingu og okkur öllum að lýðræðisleg niðurstaða fái að ráða í því og að við höldum áfram einhverjum störfum hér sem geta skilað okkur áfram að því að ljúka hér þingstörfum. (Gripið fram í.)