145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst stjórnarandstaðan afar ósamkvæm sjálfri sér. Hún viðurkenndi áðan, undir liðnum fundarstjórn forseta, að hún væri í málþófi til að knýja á um einhvers konar dagskrá og þau mál sem ríkisstjórnin vildi ljúka. Það sem hefur hins vegar verið á dagskránni hér undanfarna daga er samgönguáætlun og ég veit ekki betur en að breið og mikil samstaða sé um að klára samgönguáætlun. Ég gat ekki heyrt betur á hv. þingmanni en að hún vildi og teldi mikilvægt að klára samgönguáætlun og gagnrýndi það að það hefði ekki verið gert. Engu að síður er hún reiðubúin að taka þátt í því að tefja framgang málsins. Það þarf ekkert sérstakt samkomulag á milli formanna stjórnarflokkanna um að klára samgönguáætlun. Það hefur margítrekað komið fram hér í sölum Alþingis að allir vita um mikilvægi þess að klára þetta brýna mál. (Forseti hringir.) Eigum við þá ekki að leggja okkur öll fram um að klára þetta góða mál og fara svo í eitthvað annað?