145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:19]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu og hafði hugsað mér að spyrja hana efnislega út í það sem hún ræddi hér. Fyrst vil ég aðeins staldra við það að hv. formaður samgöngunefndar komi hér upp og útskýri fyrir hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur hvað það er sem hún sjálf meini sem meðlimur í stjórnarandstöðu. Ég vil bara árétta það að hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir er fullfær um að útskýra það sjálf hvað það er sem hún meinar með ummælum í sínum málum er varða hennar stjórnarandstöðu.

Þá að því sem hv. þingmaður var að segja hér um loftslagsmál og orkuskipti. Ég er sammála þingmanninum og mér finnst að nú árið 2016 væri það virkileg bragarbót við samgönguáætlun að fjallað væri um orkuskipti. Það skiptir máli, þegar við leggjum til fé, sem hér er allt of lítið, að við gerum ráð fyrir uppbyggingu á stöðvum um landið allt þar sem bílar geta tekið rafmagn inn á orkutanka sína, ef maður getur sagt sem svo, svo að við getum rafbílavætt landið allt. Þetta þarf auðvitað að ræða samhliða samgönguáætlun.

Ég vil bara taka undir það sem þingmaðurinn sagði áðan að þetta vantar. Sér þingmaðurinn hvernig við gætum komið þessu til betra horfs? Minni hlutinn nefnir (Forseti hringir.) þetta í áliti sínu, en loftslagsmálin eru mikilvæg. Við þurfum að tala um þau hér.