145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nefndir geta auðvitað verið misjafnlega lengi að vinna mál og hér er um viðamikið mál að ræða. Ég þekki það ekki, ég á ekki sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, svo að ég veit í sjálfu sér ekki hversu margir fundir hafi verið teknir undir þetta mál og hvort óeðlilega langur tími hefur farið í starf nefndarinnar við það. Mér finnst það hins vegar stórfurðulegt, og hæstv. ráðherra ekki til mikils sóma, að samþykkt samgönguáætlun hafi ekki verið hér í gangi fyrir þetta ár og árið í fyrra. Ég velti því fyrir mér — ég held að það sé eitthvað sem þurfi að skoða af mjög mikilli alvöru ef fjármagn fæst ekki á þessu þingi, (Forseti hringir.) svo að við getum sinnt þessu máli sómasamlega — hvort það skipti þá einhverju, úr því sem komið er, að láta málið hreinlega bíða nýrrar ríkisstjórnar að afloknum kosningum. Ég veit ekki hvort það skiptir öllu eins og málum er komið nú.