145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér stuttu samgönguáætlunina, þ.e. fjögurra ára áætlunina fyrir árin 2015–2018. Ef fólk er ekki með það á hreinu er árið 2015 liðið og 2016 langt komið. Við ræðum þetta núna vegna þess að samgönguáætlun, stuttu áætlanirnar hafa ekki verið samþykktar, eins og rakið er skilmerkilega í ágætu nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar, þ.e. hvernig þær dagaði hér uppi.

Loksins er lögð fram samgönguáætlun sem við ræðum hér. Sú samgönguáætlun var um allt of lítið, ef ég væri í stuði mundi ég segja: um nánast ekki neitt. Sem dæmi var á öllu norðursvæðinu, sem er stórt, áætlað að verja 200 millj. kr. til samgönguframkvæmda á næsta ári, sem hefði dugað fyrir 1,4 til 1,5 km lögn á malarvegi. Það er nú allt og sumt. Árið 2018 áttu að fara 150 millj. kr. í samgönguframkvæmdir á norðursvæði. Samgönguáætlunin sem lögð var fram var því um lítið sem ekki neitt.

Samgönguáætlun hefur batnað í meðförum umhverfis- og samgöngunefndar. Ég hika ekki við að segja að þar eigi formaður umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, stóran þátt í því ásamt eiginlega öllum öðrum nefndarmönnum, sama hvort þeir eru í meiri hluta eða minni hluta. Hér hafa fulltrúar minni hlutans lýst því yfir að þeir hafi talað fyrir ýmsum framkvæmdum sem þarna eru settar inn og við styðjum þær breytingartillögur sem nefndin setur fram. Skárra væri það nú vegna þess að loksins er komið smá kjöt á beinin. Ég ítreka að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, formaður nefndarinnar, á heiður skilinn, ásamt auðvitað öllum nefndarmönnum í umhverfis- og samgöngunefnd, fyrir það sem þarna er gert og það sem lagt er fram. Mér líka svona vinnubrögð þar sem nefndir taka sig til og taka fram fyrir hendur framkvæmdarvaldsins og bæta í. Ef það er rétt sem mér sýnist, að verið sé að bæta við 11–12 milljörðum árin 2017 og 2018, eða 5–6 milljörðum á ári, sýnir það bara hve mikil þörf er á því.

Það var líka hugmyndin í vor, en þá dagaði hana uppi vegna þess að þá sögðu stjórnarherrarnir: nei, takk, þetta verður ekki samþykkt, þetta eru of mikil útgjöld. Það er kannski eini kosturinn við kosningar eftir nokkra daga að samgönguáætlun verður þá samþykkt núna með þessari viðbót svo menn geti farið í kosningar með samgönguáætlun sem er með smá kjöt á beinunum.

Það sem ég ætla að gera að umtalsefni fyrst, virðulegur forseti, á þessum tíu mínútum sem ég hef, eru þær tekjur sem Vegagerðin hefur. Það eru 19,7 milljarðar á næsta ári af mörkuðum tekjum og við það bætast 8 milljarðar úr ríkissjóði, það eru 28,7 milljaðar alls. Í meðfylgjandi gögnum má lesa um að innheimtar tekjur sem markaðar eru til vegamála hafa ekki hækkað í takt við verðlag. Þess vegna er sagt að ef markaðar tekjur hefðu verið hækkaðar í takt við verðlag væru útgjöldin 23 milljarðar í staðinn fyrir 16. Það munaði hvorki meira né minna en 7 milljörðum kr. Ég hef aldrei skilið af hverju sá þáttur er ekki hækkaður til jafns við þann hluta sem rennur beint í ríkissjóð.

Ég hef reyndar sagt, og lagði það einu sinni til í ræðu, að á meðan olíuverð var svo lágt hefðum við átt að hækka bensíngjaldið og olíugjaldið a.m.k. sex mánuði ársins, yfir sumartímann þegar 13–15 þús. bílaleigubílar keyra um landið. En eins og við vitum borga ferðamenn eldsneytiskostnað af bílaleigubílunum.

Hér er sem sagt aðeins verið að bæta í. Ég fagna líka tillögunni um að styrkja innanlandsflugið til að greiða niður dýr fargjöld fyrir íbúa svæða fjarri höfuðborgarsvæðinu — og í þessari umræðu hafa verið tekin dæmi af ýmsum löndum Evrópusambandsins þar sem það er gert, bæði hvað varðar flug og samgöngur. Ég fagna þeim tillögum og tel að útfæra eigi þær á skynsamlegan hátt. Ég minni á að verið er að auka fjárveitingar til almenningssamganga á höfuðborgarsvæðinu um 1,2 milljarða kr., í strætó. Það er gott mál til þess að fjölga farþegum þar og minnka almennan akstur.

Þess vegna segi ég í sömu andrá, virðulegi forseti, að það er nauðsynlegt að skoða tillöguna varðandi innanlandsflugið, sem er allt of dýrt og gerir það að verkum að farþegum fækkar. Útfærum þessar hugmyndir og það sem hér er sett fram.

Í tíu mínútna ræðu gefst manni ekki tækifæri til að fara yfir marga af þessum þáttum, en ég vísa til fyrri ræðu minnar. En þarna er loksins sett inn fjárfesting til að klára Dettifossveg. Það var á áætlun síðustu ríkisstjórnar en þeir peningar sem þar voru inni voru teknir í viðhald vega. Þeim átti svo að skila til baka árið eftir en það gerðist ekki. En það er sem sagt komið þarna.

Loksins er líka komin fjárveiting til að nota efnið sem kemur út úr Vaðlaheiðargöngum til að setja í nýtt flughlað við Akureyrarflugvöll, sem er á undanþágum. Ef þotur lenda þar þurfa þær að standa á hlaðinu þannig að það er allt of stutt út í flugbrautina og í raun er það fyrir utan allar reglur. Þetta fé fer eingöngu í það flytja efnið og koma því fyrir. Svo á það eftir að síga og byggja þarna almennilegt flughlað.

En vegna þess dráttar sem verið hefur á því að flytja efnið eru ýmsir aðrir búnir að ná sér í sennilega 100–120 þús. rúmmetra af efni sem ekki verður þá sett í flughlaðið, þannig að við getum ekki nýtt það efni eins átti að gera.

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni fjallaði ég um ýmsa aðra þætti sem voru inni í samgönguáætlun. Ég segi það vegna þess að þessi málaflokkur hefur verið mitt hjartans mál þau 17 ár sem ég hef verið á þingi. Ég var settur í samgöngunefnd og hef verið stoltur af því sem þar hefur verið gert. Ég vil halda áfram að ræða það vegna þess að innviðastyrkingin sem fæst með bættum samgöngum, sérstaklega úti á landi þar sem samgöngur eru erfiðar og vegakerfið og annað slíkt er mjög lélegt á mörgum stöðum, hefur mikil áhrif. Gert hefur verið gert stórátak sem hefur heldur betur skilað sér til almennings og til fyrirtækja og hefur þýtt mikla uppbyggingu og styrkingu byggðarlaga í framhaldi af því. Ég tek sem dæmi hvaða þýðingu Héðinsfjarðargöng hafa haft fyrir minn heimabæ, Siglufjörð. Ég nefni líka Bolungarvík. Ég nefni Norðfjörð. Þau göng verða tekin í notkun á næsta ári. Þannig má lengi halda áfram.

Eðli málsins samkvæmt, virðulegi forseti, er jarðgangaáætlun mjög mikið langtímaplan. Hvort sem við erum að vinna við ein eða tvenn jarðgöng á hverju ári, sem ætti náttúrlega helst að vera, þurfum við að hugsa fram í tímann. Það var einmitt þess vegna sem ég lagði fram tillögu til þingsályktunar í apríl sl. um að fela innanríkisráðherra, sem mundi þá fela Vegagerðinni það, að hefja nauðsynlegar rannsóknir og frumhönnun á jarðgöngum milli Siglufjarðar og Fljóta. Hvers vegna legg ég þá tillögu fram? Ég er ekki að segja að fara þurfi í þetta næstu tvö til fimm árin. Þetta er langtímamarkmið. Þetta er langtímavegatenging sem kemur í staðinn fyrir hættulegan og erfiðan veg um Almenninga, þar sem mikið jarðsig er og akkúrat núna á þessum tíma fer þar allt af stað rétt einu sinni vegna úrkomu. Síðan hafa aðrir þættir blandast þar inn í. Með stóraukinni umferð um Héðinsfjarðargöng er vegurinn í gegnum bæinn orðinn stórhættulegur og liggur fyrir að ef nota á hin gömlu Strákagöng áfram, sem eru barn síns tíma, þau eru í raun á kolvitlausum stað, þarf að gera ráðstafanir varðandi nýja innkeyrslu vegna þess að ekki gengur að hafa innkeyrsluna í gegnum þéttar íbúðagötur.

Þess vegna er þessi langtímahugsun sett þarna fram, til að hefja undirbúning, rannsóknir, sem fólgnar eru í því að nokkrir verkfræðingar og aðrir aðilar fari um svæðið og skoði kort og annað slíkt og ímyndi sér hvernig sé best að gera þetta. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið er hægt að gera fimm kílómetra jarðgöng úr Siglufirði yfir í Fljót, sem mundi jafnframt stytta leiðina mjög mikið. Ég nefni það í leiðinni að þessi leið gæti orðið varaleið fyrir Öxnadalsheiði þegar hún er ófær, sem gerist oft á veturna vegna slæmra veðra.

Þetta gæti orðið mín síðasta ræða á Alþingi um samgönguáætlun. Vonandi fara málin að þokast eitthvað áfram hér á þingi og vonandi förum við að klára málin, en e.t.v. er þetta mín síðasta ræða hvað það varðar. Þess vegna gat ég ekki annað en minnt á þessa hugmynd sem vert er að skoða. Það þarf ekki að eyða miklum peningum í hana. Menn fara ekki í neinar borrannsóknir eða neitt fyrr en tveimur, þremur, fjórum, fimm árum áður en framkvæmdir hefjast. Menn eyða ekki peningum svo langt fram í tímann. En rannsóknir, skoðun og undirbúningur eru mikilvægur undanfari. Ég fagna þeirri viðbót sem nefndin leggur hér til og vona að viðbæturnar verði samþykktar. Ekki veitir af í þeirri áætlun sem lögð var fram, sem (Forseti hringir.) var um lítið sem ekki neitt. Hér er aðeins komið kjöt á beinin með þessari viðbót og orðum (Forseti hringir.) mínum kannski líka, virðulegi forseti. Ég talaði um nauðsyn á frekari skoðun varðandi jarðgöng, (Forseti hringir.) sama hvort það eru Siglufjarðargöng eða Álftafjarðargöng eða aðrar brýnar framkvæmdir sem eru lausn á samgönguvanda og skapa mikið öryggi til (Forseti hringir.) 100, 150 ára.