145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:16]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta andsvar og þessar ábendingar. Mér finnst það mjög áhugavert sem þingmaðurinn er að segja að við þurfum jafnvel sérstakan lið í vegmerkingar, kannski ekki. Við erum að setja aukapeninga í viðhald. Á þetta hugsanlega að fara af viðhaldi eða jafnvel af einhverjum öryggispotti sem Vegagerðin er með?

Hv. þingmaður nefnir einbreiðar brýr og merkingar og það hefur verið sérstakt áhugamál hjá mér. Ég hef sent Vegagerðinni bréf og hvatningu þess efnis að merkja sérstaklega einbreiðu brýrnar betur. Þar var ég aðallega með eina lausn í huga. Ef þingmenn hafa keyrt niður Kambana þá sjá þeir tilmælaskilti. Þau eru blá og með stórum stöfum og ætlast er til þess að þú keyrir á ákveðnum hraða þó að ekki sé bannað að keyra hraðar. Þetta skilst á öllum tungumálum, stendur 60, 50 eða 40 eða hvaða tala sem er. Ég mundi vilja sjá, á þeim einbreiðu brúm sem enn eru á þjóðveginum, að sett verði tvö eða þrjú skilti beggja megin við hverja einbreiða brú, 70, 50, 30. Þetta segir að það er hætta á leiðinni, æskilegt að þú hægir á þér og ef þú missir af einu skilti þá nærðu a.m.k. því næsta. Mér finnst þetta skynsamlegt. Að sjálfsögðu kostar þetta eitthvað og ekki er verið að ráðast að rót vandans sem er einbreiða brúin. En þegar maður er með lítið af peningum milli handanna þá getur þetta verið betra en að tapa mannslífi eða að missa fólk í alvarleg slys.