145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:23]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Einarssyni fyrir ræðuna. Það er gaman að hlusta á menn halda ræðu þegar þeir tala greinilega af þekkingu. Mér fannst koma mjög skýrt í ljós í máli hv. þingmanns að hann þekkir kjördæmi sitt ansi vel og það er auðvitað gott. Þess vegna var bæði fróðlegt og skemmtilegt að hlusta á ræðu um samgöngu- og vegamál í kjördæmi hans. Við getum svo deilt um það einhvers staðar annars staðar hversu kynþokkafullar hafnir eru, en ég held að við tökum þá umræðu kannski ekki hér og nú.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Hann boðaði í upphafi ræðu sinnar að tíminn væri takmarkaður og því ætlaði hann að byrja á því að einbeita sér að sínu kjördæmi og boðaði það jafnframt undir lok ræðunnar að hann yrði þá að koma aftur í seinni ræðu til að tala um restina af landinu. Mig langaði að heyra hvaða sýn hv. þingmaður hefur á þetta, þ.e. þessi pólitísku og kjördæmatengdu sjónarhorn, og hvernig við sem þingmenn getum látið þetta kallast á og vera í einhverju jafnvægi. Ég er í það minnsta þeirrar skoðunar að það sé ekki gott að við förum héðan frá Alþingi í eitthvert kapphlaup um að lofa sem mestu á tilteknum svæðum án þess að hafa neina heildarmynd undir.

Mig langar að biðja hv. þingmann um að lýsa því hvernig hann sér þetta.