145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:26]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Hún er ekki einföld og því verður svarið ekki heldur einfalt. Það sem er mikilvægast í samgöngumálum og mikilvægast þegar við vinnum með samgönguáætlun er að við erum með ákveðna fjármuni sem við ætlum að setja í málaflokkinn og það verður alltaf pólitískt hve mikið við setjum í hann. Það verður alltaf hægt að bæta við og við erum aldrei búin að fulltryggja umferðaröryggi.

Peningarnir eiga að fara í að bæta umferðaröryggi og fyrirbyggja slys, það er mín sýn. Oft getur það markmið tapast ef við erum með stóran þrýstihóp sem kallar, sendir okkur skeyti eða hringir í okkur heima í kjördæmi, eða í aðra sem við þekkjum. Þá getur það gerst að sýnin á umferðaröryggið tapast. En umferðaröryggi er heldur ekki einfalt. Það fer eftir því hvernig samgöngukerfinu er háttað, það fer eftir magni umferðar, það fer eftir svo mörgu. Þetta er í því í sjálfu sér tiltölulega flókið.

Það er mjög erfitt fyrir eina nefnd að segja hvað sé betra en annað. EuroRAP hefur verið að mæla vegi eftir ákveðnum stöðlum og gefa þeim einkunn og því held ég að það sé alveg til skoðunar að við ættum að skipta um kerfi þegar við erum að forgangsraða því í hvað við ráðumst fyrst og næst og hvað síðar, eftir þannig mælikvörðum.