145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:28]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég átta mig alveg á því að þetta er stór og viðamikil spurning sem erfitt er að svara á tveimur mínútum, en ég held að þetta sé mikilvægt mál sem við þurfum að hafa í huga. Við hljótum þá líka að þurfa að líta til þeirra sem gleggst þekkja málið á landsvísu. Þar er nærtækt að benda á fulltrúa Vegagerðarinnar.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann út í það sem hann sagði í ræðu sinni um við þurfum að fá meiri innspýtingu í samgöngukerfið. Þetta var nefnt í tengslum við öryggismálin og viðhaldsmálin. Það hefur verið bent á það af fulltrúum Vegagerðarinnar að enn meiri peninga þurfi í samgönguáætlun til þess eins að halda í horfinu í vegakerfinu. Það er, má segja, eitt risastórt öryggismál. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann treysti sér til að samþykkja, greiða atkvæði sitt með þeim breytingartillögum sem minni hluti hv. umhverfis- og samgöngunefndar leggur til. Þar er jú lagt til að ráðstafa enn meiri peningum í þennan mikilvæga málaflokk.