145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:32]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta er risastórt mál sem við ræðum hérna. Þetta er fyrsta ræðan mín en ég er búin að fara í nokkur andsvör. Ég gæti haldið margar ræður en ég ætla að byrja á þessari og sjá hvort það dugar mér. Það vekur fyrst athygli, og ber að nefna, að við séum hér vonandi að samþykkja samgönguáætlun, þá fyrstu á þessu þingi. Lögð var fram tillaga á 141. löggjafarþingi en varð ekki einu sinni rædd. Svo var hún aftur lögð fram á 143. þingi, þá hlaut hún ekki afgreiðslu, aftur á 144. löggjafarþingi og þá var hún afgreidd úr umhverfis- og samgöngunefnd en hlaut ekki endanlega afgreiðslu. Og nú erum við árið 2016 væntanlega að fara að samþykkja þessa samgönguáætlun sem er, ef ég á að lesa út úr nefndarálitum meiri hluta og minni hluta, í raun vanfjármögnuð. Allir virðast vera sammála um að við hefðum átt að setja meiri peninga í þennan mikilvæga málaflokk.

Það þarf peninga í viðhald og nýframkvæmdir. Eins og ítrekað hefur verið nefnt hér erum við með 39 einbreiðar brýr á þjóðvegi 1. Ef upplýsingar mínar eru réttar, þær eru líklega upp úr einhverju nefndaráliti, eru 683 einbreiðar brýr á öllu landinu. Auðvitað er engin ástæða til að fara í framkvæmdir við sumar þeirra, þær geta verið á fáförnum vegum, en það að við séum með 39 einbreiðar brýr á þjóðvegi 1 er allt of mikið og það skiptist þannig niður að þær eru bara í Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lagði á þessu þingi fram fyrirspurn um einbreiðar brýr, spurði út í kostnað við að útrýma einbreiðum brúm á þjóðvegi 1 og fékk það svar frá innanríkisráðuneytinu að það kostaði 13 milljarða. Í stóra samhenginu þegar við horfum á þær fjárhæðir sem fara í samgöngumál er það ekki stór upphæð. Nú á vissulega að halda áfram með verkefnið, alltaf er eitthvað verið að bæta og laga, taka einbreiðar brýr og breyta þeim en það gerist mjög hægt. Eins og við ræddum áðan hafa orðið alvarleg slys á ferðamönnum sem hugsanlega þekkja ekki fyrirbærið einbreið brú og skilja ekki merkingarnar. Þá skiptir máli að á meðan við erum ekki búin að lagfæra þetta séu merkingarnar alveg skýrar og það getur ekki verið kostnaður sem við setjum fyrir okkur. Ég veit að Vegagerðin hefur skilning á þessu en þeir peningar þurfa þó að vera til svo hægt sé að búa til þannig skilti.

Okkur verður tíðrætt um fjölda ferðamanna og það álag sem er á þjóðvegum landsins vegna þeirra. Við erum að byggja upp samgöngukerfi fyrir íbúa landsins fyrst og fremst. Þjónustan hefur verið að færast yfir í þéttbýlisstaðina og það kallar á greiðar samgöngur. Ef ég tek dæmi úr mínu kjördæmi fæða væntanlega flestar konur núna á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem þýðir að þær þurfa að komast til Akureyrar hvernig sem viðrar, að vestan og austan. Krafan um greiðar samgöngur er mjög rík og mjög eðlileg og þess vegna hafa allir skoðanir á þessum málum og væntanlega líka þá skoðun að við eigum að setja meiri pening í kerfið.

Hvaðan eiga þá peningarnir að koma? Við í Bjartri framtíð höfum ítrekað bent á að við sjáum eftir þeim peningum sem fóru í skuldaniðurfellinguna. Ég geri mér grein fyrir því að deildar meiningar eru um hvort þeir peningar hafi nýst vel. En þegar við komum út úr hruninu og þurftum að skera niður á sem flestum sviðum, náðum ekki að byggja upp eins og hefði þurft, safnaðist upp þörf á viðhaldi og uppbyggingu og það kostar. Ef við látum viðhaldið sitja á hakanum verður það dýrara þegar við ætlum að ráðast í framkvæmdirnar, gera við eða byggja upp.

Hv. þm. Haraldur Einarsson nefndi áðan, sem mér fannst áhugavert, að hann teldi að við værum að innheimta 60 milljarða í alls konar gjöld sem tengjast umferð, bifreiðaskatt, eldsneytisgjöld og hvað þetta heitir allt. Hluti þeirra fer aftur í samgöngumálin en restin væntanlega í önnur málefni. Ef við ætlum að taka meira af þessari köku í samgöngumálin þurfum við að ákveða hvað á undan að láta.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi það í ræðustól að mörkuðu tekjurnar hefðu ekki hækkað í samræmi við hækkun vísitölu og að þar hefðum við orðið af töluverðum upphæðum. Það er líka tilgreint, sá ég einhvers staðar í nefndaráliti meiri hlutans, að þarna hefðum við orðið af tekjum. Ég held að ég muni rétt að í nefndaráliti meiri hlutans var vikið að því að það bæri að skoða að hækka þessi gjöld. Þá er ekkert annað í boði en að gera það. Ef menn ætla að fá meiri pening í málaflokkinn verður að sjálfsögðu að innheimta þau gjöld einhvers staðar. Ég veit ekki alveg eftir hverju er beðið þar.

Mér finnst mjög mikilvægt að ræða umferðaröryggismálin. Við vitum að erlendu ferðamennirnir eru oft og tíðum ekki vanir að keyra á malarvegum eða mjög mjóum malbikuðum vegum með malarkanti og eru vanir því að hámarkshraði sé mun hærri en hér. Þegar ég vann sem leiðsögumaður keyrði ég stundum með Ítölum sem fóru mjög greitt. Það á líka við um okkur Íslendinga. Ég keyrði frá Siglufirði um helgina og inni í Héðinsfjarðargöngunum fóru tveir bílar fram úr okkur. Við vorum á löglegum hraða og bílar fóru fram úr inni í jarðgöngum. Ég held að þetta hafi ekki verið útlendingar, ekki hægt að kenna þeim um, og ég hef áhyggjur af því að löggæsla á vegum úti sé bara ekki nógu sýnileg.

Við sem keyrum oft á milli Akureyrar og Reykjavíkur pössum okkur sérstaklega í kringum Blönduós, í Húnavatnssýslunum. Þar hefur umferðareftirlitið verið mjög mikið, þar er eini staðurinn sem ég hef nokkurn tímann verið tekin fyrir að keyra of hratt og það skiptir máli, það hefur áhrif. Ég er líka að velta fyrir mér hve rög við erum við að taka á því þegar fólk talar í farsímann í bílum. Við getum öll litið í eigin barm hvað það varðar. Það er alveg út í hött að við skulum ekki taka það alvarlega. Ég veit að í Danmörku eru sektirnar mjög háar. Fólk svarar ekki í símann inni í bíl vegna þess að það vill ekki eiga á hættu að fá háa sekt. Við verðum að horfa til þessa. Það skiptir vissulega miklu máli að við byggjum upp eins örugga vegi og hægt er. Það skiptir máli að klára tvöföldun Reykjanesbrautar eins og bent var á og vinna í því af meira kappi að aðskilja akreinar, að byggja vegina upp samkvæmt þeim stöðlum sem við þekkjum og eru vísbending um það hvernig vegir geta verið eins öruggir og mögulegt er. Það þarf auðvitað merkingar og við verðum að losa okkur við einbreiðu brýrnar en ég held líka að löggæsla, fræðsla og forvarnir skipti mjög miklu máli.

Annað sem gefst ekki tími til að ræða hér en er mjög spennandi og kannski líka ógnvekjandi eru sjálfkeyrandi bílar sem við eigum örugglega eftir að sjá í framtíðinni og hvaða áhrif þeir hafa. Ég held að slysin verði því miður oft vegna þess að við gleymum okkur eða keyrum of hratt miðað við aðstæður og það er sjálfsagt að reyna að koma í veg fyrir það með öllum ráðum. Ég velti því t.d. fyrir mér af hverju við sættum okkur við að sauðfé gangi laust við þjóðveg 1. Allir hafa örugglega upplifað það að hafa næstum orðið fyrir slysi eða orðið vitni að slysi þar sem keyrt er á sauðfé. Við sem ölumst hér upp vitum að við eigum ekki að stoppa heldur keyrir maður áfram en ferðamennirnir vita það ekki og ég man eftir banaslysi þar sem frönsk kona dó vegna þess að það var verið að reyna að keyra fram hjá sauðfé. Það þarf að girða, það kostar sitt, en er það ekki bara sá kostnaður sem við förum í til að koma í veg fyrir jafnvel banaslys? Á sumum sviðum finnst mér við stundum vera að bjóða hættunni heim.

Minnst er á það í nefndaráliti meiri hlutans að misræmi sé á milli fjármálaáætlunar og samgönguáætlunar. Við ræddum þetta í fjárlaganefnd þegar við vorum með fjármálaáætlunina til umfjöllunar. Nú man ég ekki hvort þetta voru 3 eða 5 milljarðar. Jú, þarna vantaði 3 milljarða inn í. Eins og segir hér er það ekki há upphæð sem hlutfall af samgönguáætlun en 3 milljarðar eru samt 3 milljarðar og einhvern veginn þarf að finna út úr því hvorum megin þetta liggur. Í fjármálaáætluninni var örugglega gert ráð fyrir að framlögin til samgöngumála væru lægri en þau eru í raun og veru. Þetta verður væntanlega lagað þegar fjármálaáætlun verður uppfærð.

Lagt er til að 75 millj. kr. viðbótarframlag verði sett í almenningssamgöngukerfið til að mæta uppsöfnuðum halla. Það hafa verið mikil vandamál, kannski sér nú fyrir endann á þeim, en þær almenningssamgöngur sem komið var upp úti á landi eru gríðarlega mikilvægar. Það gekk mjög brösuglega og á svæði Eyþings var reksturinn ekki góður, lítið fékkst úr þróunarsjóði og eitt og annað var að. Menn höfðu gert ráð fyrir að fá olíugjaldið endurgreitt og ekki varð af því. Verkefnið er þó mikilvægt og ég er mjög ánægð með að það hafi ekki dottið upp fyrir eins og manni fannst næstum því stefna í og að fjármagn sé þá sett í að reyna að rétta þetta af og koma skikki á málið. Þetta skiptir miklu máli.

Minni hlutinn er með breytingartillögur sem ganga aðeins lengra. Meiri hlutinn er vissulega líka með breytingartillögur þar sem lagt er til að setja meira fé í hin og þessi verkefni og ég held að það færi mjög vel á því að tekið væri tillit til breytingartillagna minni hlutans og samgönguáætlun samþykkt með breytingartillögum bæði minni og meiri hluta. Það má lesa út úr áliti meiri hlutans að of naumt er skammtað, það segir hér. Ef borð er fyrir báru í ríkisfjármálunum þurfum við að leggja meira fé í þennan málaflokk ef ekki á illa að fara.

Af því að þetta er samgönguáætlun tölum við mikið um vegamálin en undir eru líka hafnarframkvæmdir og samgöngur í lofti. Við höfum aðeins rætt innanlandsflugið sem er gríðarlega mikilvægt fyrir landsbyggðina og hefur ekki verið alveg á hreinu hvert hlutverk Isavia er gagnvart innanlandsvöllunum. Sumum finnst að mikið fari í uppbyggingu í Keflavík, en hún er væntanlega nauðsynleg, á meðan margir aðrir flugvellir liggja jafnvel undir skemmdum, eins og maður upplifir t.d. á Norðfirði. Það er eiginlega ekki hægt að tala um samgöngumál án þess að tala um Reykjavíkurflugvöll. Nú finnst manni eins og farið sé að tala um það af aðeins meiri alvöru að skoða hvort það sé góð hugmynd að setja nýjan innanlandsflugvöll í Hvassahraun. Ég varð fyrir vonbrigðum eftir að hin svokallaða Rögnuskýrsla kom út, ég hélt að sú skýrsla mundi leiða til umræðu, að við mundum taka málið áfram. Vissulega var Reykjavíkurflugvöllur ekki einn af kostunum í þeirri skýrslu heldur voru aðrir kostir skoðaðir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum umræðu um Reykjavíkurflugvöll áfram og fáum botn í það hvort flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni. Ef hann á ekki að vera þar, hvað á þá að gera? Hvernig er hægt að tryggja innanlandsflugið, örugga samgönguleið á höfuðborgarsvæðið fyrir fólk utan af landi? Hvernig verður það best gert? Hvað þýðir það ef innanlandsflugið fer til Keflavíkur?

Við spólum í hjólfari hérna og mér finnst við þurfa að fara að slá einhverja kosti út af borðinu og skoða hvaða kostir eru raunhæfir. Hvassahraun gæti alveg verið raunhæfur kostur, ég ætla ekki að slá það út af borðinu. Persónulega held ég að ef innanlandsflugið færi til Keflavíkur mundi næstum því borga sig fyrir Akureyringa að keyra. Þá eru forsendur innanlandsflugsins að einhverju leyti brostnar. Ég skal ekki segja hvort það mundi bæta upp að fleiri ferðamenn færu þá um völlinn. Það er ekki fjallað um þessa þætti í nefndarálitum um tillögu um samgönguáætlun en mér finnst brýnt að við tökum þessa umræðu alvarlega í meira mæli en við höfum gert hingað til.

Ég hefði viljað sjá miklu meiri umfjöllun um Rögnuskýrsluna. Ég vona að við skoðum hvort eitthvert vit sé í hugmyndinni um Hvassahraun. Það má vel vera. Persónulega mundi ég vilja fá flugvöllinn á Bessastaðanes, þegar ég flýg yfir horfi ég á landsvæði rétt við borgina. Ég veit að þarna er gæs, það er spurning hvort við gætum fundið henni annan stað. Ég veit ekki hvort forsetinn er svo mikið á Bessastöðum að aðflugið trufli hann. Þetta er mín persónulega skoðun þegar ég met stöðuna uppi í háloftunum og horfi yfir svæðið, kannski ekki mjög vísindalegt. Ég læt þessu lokið að sinni.