145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er athyglisvert sem hv. þingmaður bendir á að eldsneytisverðið hefur verið lágt og þess vegna hefði verið gráupplagt að hækka mörkuðu tekjurnar og fá þannig meiri peninga inn í kerfið. Ég verð að viðurkenna að fyrir mitt leyti finnst mér alveg grátlegt að þeir flokkar sem hafa farið með stjórnartaumana á Alþingi hafi látið sér þetta tækifæri úr greipum ganga og að við sitjum uppi með vegakerfi sem er illa haldið. Það hefur ekki einu sinni verið hægt að sinna viðhaldi á vegum heldur er ástandið þannig að vegirnir eru að versna og þess vegna þarf að grípa inn í og setja aukið fjármagn í þá. Auðvitað þarf að afla þess. Ég held að það verði ekkert hjá því komist, ástandið er þannig, þetta er svo gríðarlegt hagsmunamál fyrir alla landsmenn, hvar sem þeir búa. Þetta er líka mikilvægt í atvinnulegu tilliti og á alla lund.

Mig langar að nota þessar síðustu sekúndur til að spyrja hv. þingmann út í loftslagsmarkmiðin og loftslagsmálin, spyrja hana hvort hún sé sammála mér í því að það hefði þurft að leggja enn meiri áherslu á orkuskipti í samgöngum. Mig langar líka að spyrja hv. þingmann, af því að hún á sæti í fjárlaganefnd, að því hvernig þeim málum er háttað almennt. Er farið að líta nógu mikið til þess við áætlanagerð og ráðstöfun fjármuna hvernig við getum tekist á við loftslagsvandann?