145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:06]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að heildarsýn skortir. Það skortir heildarsýn í því að bera samgöngukerfið saman við ýmis önnur áform sem uppi eru í okkar ágæta samfélagi, til að mynda áform um sameiningu sveitarfélaga, áform um að leggja saman atvinnu- og búsetuþróunarsvæði, áform um staðsetningu Landspítalans. Allt veltur það á samgöngum og greiðum tengingum.

Við vitum líka að umferðarkerfið í Reykjavík og í nágrenni Reykjavíkur er á köflum að springa undan umferðarþunga. Mér finnst hafa verið afskaplega lítil umræða hér í samfélaginu um lestarsamgöngur sem úrræði í samgöngumálum í tengslum við innanlandsflug og í tengslum við almennar almenningssamgöngur í þéttbýlinu.

Er ekki tími til kominn að við Íslendingar förum að skoða það af meiri alvöru en gert hefur verið? Það hefur oft og tíðum verið viðkvæði að allt sé svo dýrt. Veistu hvað það kostar? spyrja menn þegar ég nefni lestarsamgöngur. Ég segi: Nei, en hefur einhver skoðað það? Það er kannski orðið tímabært að við gerum það. Þetta er líka öryggismál, og ég veit að hv. þingmanni eru öryggismálin í umferðinni hugleikin, þ.e. að létta umferð af þeim umferðaræðum sem nú þegar eru að bresta undan álagi. Það er hér í höfuðborginni og það er í nágrenni höfuðborgarinnar og það er á ýmsum stórum stofnbrautum vegna aukins ferðamannaþunga.

Væri það ekki þess virði að mati hv. þingmanns að gangskör yrði gerð í því að skoða af alvöru uppbyggingu lestarkerfis og þar með möguleika á að létta af umferðarþunganum hér í höfuðborginni?